Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, vill vita hvort hótel og gististaðir hafi verið búnir að taka fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts inn í gjaldskrá sína

„Hefur verið kannað í hve ríkum mæli hótel og aðrir gististaðir höfðu þegar tekið fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts úr 7% í 14% inn í gjaldskrá sína áður en fallið var frá innheimtunni?“ segir Steingrímur í skriflegri fyrirspurn til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Þá vill Steingrímur líka vita hvort fylgst hafi verið með því hvort hótel og gististaðir sem höfðu hækkað gjaldskrár eða boðað hækkun á gjaldskrá, til samræmis við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, hafa dregið þær hækkanir til baka eftir að fallið var frá innheimtunni.