Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra um lögreglu og dróna.

Vill Helgi þannig vita hvort lögreglan hafi fest kaup á dróna eða hvort hún fyrirhugi slík kaup. Spyr hann jafnframt hvort lögreglan hafi eignast dróna með öðrum hætti, og hvort fyrirhugað sé að hún fái slíkan búnað að gjöf eða að láni.

Þá spyr Helgi dómsmálaráðherra hvort hann telji lögreglu hafa lagaheimild til að kaupa og nota dróna, og hvernig ráðherra sjái fyrir sér að dróni í eigu lögrelunnar nýtist frá degi til dags.

Að lokum spyr hann hvort dómsmálaráðherra telji að setja þurfi sérstakar reglur um notkun lögreglunnar á drónum, og ef svo er, hvert efni slíkra reglna yrði.