Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vill vita hvort fjölmiðlanefnd þyki RÚV uppfylla almannaþjónustuhlutverk sitt. Þetta kemur fram í fyrirspurn sem Katrín lagði fram á Alþingi í dag og er beint til Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.

Í fyrirspurninni segir: „Hefur fjölmiðlanefnd lagt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt eins og gert er ráð fyrir í 15. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013?“

Fjölbreytt hlutverk RÚV

Í lögum um Ríkisútvarpið sem voru sett árið 2013 er hlutverk RÚV skilgreint. Fjölmiðlinum ber meðal annars að ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, sannreyna að heimildir séu réttar og að gæta sanngirni í framsetningu, meðal annars með því að vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð.

Þá ber RÚV að kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir og kynna ólík sjónarmið í umfjöllun sinni. Katrín vill meðal annars vita hvort fjölmiðlanefnd telji þessum atriðum fullnægt af RÚV, en nefndinni ber skylda til þess að leggja mat á hvort RÚV uppfylli áskilnað laganna.