Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, vill fá upplýsingar um það frá menntamálaráðherra hvort hann áformi að leita heimildar Alþingis til að selja Rás 2, aðrar deildir eða einingar Ríkisútvarpsins eða Ríkisútvarpið í heild. Björn Valur lagði fram fyrirspurn þess efnis á Alþingi í dag.

Björn Valur spyr líka hvort farið hafi fram verðmat á eignum deildanna sem um ræðir og hvert áætlað söluverð þeirra sé. Þá vill hann að Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra svari því hvort hann eða embættismenn hjá ráðuneytinu hafi rætt við eða átt í samskiptum við hugsanlega kaupendur.