Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt fram þrjár fyrirspurnir á Alþingi um greiðslur í tengslum við störf rannsóknarnefnda Alþingis. Hann vill svör frá forseta Alþingis um greiðslur vegna rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og um Íbúðalánasjóð.

Karl vill fá upplýsingar um greiðslur nefndarmanna, tímafjölda hvers nefndarmanns og tímakaup þeirra. Þá vill hann vita hvort greiðslurnar voru verktakagreiðslur eða ekki, og hvort greitt hafi verið orlof, í lífeyrissjóði og aðrar launatengdar greiðslur.

Jafnframt vill hann vita hvort lögaðilum í eigu nefndarmanna eða tengdum þeim var greitt fyrir störf. Að síðustu vill hann vita hverjir til viðbótar við nefndarmenn hafi fengið greitt fyrir störf í þágu rannsóknarnefnda.