Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill vita hver meðalheildarlaun starfsmanna Seðlabankans voru á síðasta ári og hvernig þau hafa þróast frá árinu 2008. Hann hefur lagt fram fyrirspurn þessa efnis á Alþingi. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þorsteinn segir að þegar hann hafi skoðað tekjublað Frjálsrar verslunar hafi það vakið forvitni hans hversu há laun millistjórnendur í Seðlabankanum voru að fá greidd. Þeir séu að fá fimm eða sexföld laun félagsmanna ASÍ og fjögur til fimmföld laun BSRB-félaga. Hann segist vilja fá staðfest hvort launakjörin sem birtust í tekjublaðinu séu rétt.