Velta jókst um 7% síðustu 12 mánuði í virðisaukaskattskyldri starfssemi. Kemur þetta fram í leiðréttri frétt frá Hagstofunni, en í ljós kom að villa reyndist í grunngögnum, sem Hagstofunni bárust vegna fréttar um sama efni sem birtist 14. september síðastliðinn.

Veltan lækkaði um 22 milljarða

Villan var í lið sem nær yfir fiskveiðar, fiskeldi og vinnslu sjávarafurða, og reyndist hann vera 60 milljarðar en ekki 82 milljarðar eins og áður var talið á virðisaukaskattstímabilinu maí-júní 2016.

Á tímabilinu reyndist því heildarveltan vera 750 milljarðar en ekki 772 milljarðar.

Áhrif hækkunar vörugjalda á áfengi

Um áramótin tóku í gildi breytingar, bæði á lögum um virðisaukaskatt sem og á vörugjöldum. Helstu breytingarnar voru að á sama tíma og áfengi var fært úr efra þrepi virðisaukaskatts í það neðra, þá hækkuðu vörugjöld á áfengi. Hækkunin olli veltuaukningu í liðum sem ná yfir heild- og smásöluverslun og rekstur gististaða og veitingarekstur.

Skýring á mikilli aukningu í virðisaukaskattskyldri veltu í greinum er varða farþegaflutninga og ferðaþjónustu er að nú eru nokkrar atvinnugreinar sem áður voru undanþegnar þessari skattheimtu það ekki lengur.