Vöruskipti voru neikvæð um 640 milljónir króna í desember síðastliðnum. Neikvæð vöruskipti hafa ekki sést hér á landi síðan í janúar árið 2009 þegar þau voru neikvæð upp á rúma 1,8 milljarða króna. Þar áður höfðu vöruskipti verið neikvæð nær samfellt frá því í september árið 2004 og fram í ágúst árið 2008.

Þegar verst lét voru vöruskipti neikvæð upp á tæpa 22,8 milljarða króna. Það var í júlí árið 2008.

Fram kemur á vefsíðu Hagstofunnar í morgun að villa í grunngögnum í dsember hafi valdið því að leiðrétta hafi þurft bráðabirgðatölur um vöruskipti í fyrra. Útflutningur í desember hafi því reynst 7,6 milljörðum krónum lægri en áður hafi verið talið. Í þeim tölum sem Hagstofan birti í vikubyrjun voru vöruskiptin sögð hagstæð um 6,9 milljarða króna.

Miðað við leiðréttar tölur nam afgangur af vöruskiptum á öllu síðasta ári því 96,9 milljörðum króna í stað 104,5 milljarða.