Vilhjálmur Egilsson lét nýlega af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) eftir sjö ára starf. Í viðtali við Viðskiptablaðið spyr blaðamaður Vilhjálm út í síðustu fjögur ár og gerir að því skóna að þau hafi verið ströng og erfið. Vilhjálmur leiðréttir það þó kurteislega og segir öll sjö árin hafa verið viðburðarrík enda hangi það saman sem gerist fyrir og eftir hrunið hausti 2008.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu Viðskiptablaðsins sl. fimmtudag og er þess í stað birtur hér í heild sinni.

„Á árunum 2006 - 2008 varð fjármálageirinn yfirgnæfandi í öllu atvinnulífinu og samfélaginu. Hann spilaði í raun í allt annarri deild en allir aðrir í atvinnulífinu," segir Vilhjálmur aðspurður þau ár sem hann starfaði hjá SA.

„Það var í raun engin leið fyrir restina af atvinnulífinu að keppa við fjármálageirann. En þetta hafði líka ákveðnar breytingar í för með sér á atvinnulífinu í heild. Þegar hér fylltist allt af peningum fóru menn að kaupa og selja fyrirtæki og eignir sem aldrei fyrr. Þetta var mjög sérstakur tími. Ég man ekki til þess að menn hafi litið á þetta sem vandamál heldur sem viðfangsefni. Fólk í fjármálageiranum var með há laun og það er í raun enginn á móti því. En þegar ósköpin dundu yfir kom í ljós að grunnurinn var miklu veikari en menn höfðu haldið. Það voru gífurleg vonbrigði að upplifa það."

Vilhjálmur segir helsta verkefni SA eftir hrun hafi verið að mynda samstöðu með verkalýðshreyfingunni og koma fram sem afl stöðugleika í samfélaginu eins og hann orðar það.

„Það var allt upp í loft í samfélaginu en ég tel að okkur hafi tekist að vinna gott starf í gegnum þetta allt saman," segir Vilhjálmur.

„Við reyndum hvað við gátum að sjá til þess að fólk héldi vinnunni og hvöttum fyrirtæki til að segja fólki ekki upp heldur frekar að ráða það í hlutastörf ef þess var kostur. Þegar svona ósköp gerast kemur það svo vel í ljós hvað starf og atvinna fólks skiptir miklu máli í lífi fólks og hvað það að hafa vinnu er stór og mikilvægur þáttur. Það hefur gífurlega þýðingu fyrir velferð fjölskyldna og heimila."

Þá segir Vilhjálmur af fyrra bragði að fyrsta verkefnið eftir hrun hafi verið að einbeita sér að því hvernig hægt væri að byggja hagkerfið upp á ný og að aðilar vinnumarkaðarins hafi þar haldið fyrri samstöðu.

„Mestu vonbrigðin eru að upplifa að allt hefur gengið miklu hægar en við vildum og að við erum ekki á þeim stað sem við gætum verið á. Þar kenni ég mjög mikið ríkisstjórninni um," segir Vilhjálmur.

„Ríkisstjórnin hefði þurft að vilja vinna með okkur og öðrum aðilum vinnumarkaðarins við að leita að praktískum lausnum á þeim viðfangsefnum sem voru til staðar. Það var ekki hægt þar sem ríkisstjórnin var alltaf að reyna að vinna hugmyndafræðilega sigra. Þegar upp er staðið vinnur enginn hugmyndafræðilega sigra á íslensku atvinnulífi. Það er svo vitlaust að halda það."

Vilhjálmur nefnir í kjölfarið að Íslendingar hafi á síðustu árum misst af miklum tækifærum til að auka verðmæti í útflutningsgreinum, þá helst í sjávarútvegi og stóriðju en ferðaþjónustan hafi þó fengið að byggjast upp „þangað til að ríkisstjórninni fannst nóg um," eins og hann orðar það og vísar til hækkandi skatta í greininni.