Svanhildur Hólm Valsdóttir hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá Viðskiptaráði Íslands í tæplega eitt ár. Hún segir fyrsta árið í starfi hjá ráðinu hafa verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. „Það hefur á margan hátt verið mjög áhugavert að sjá hvernig hvernig svona samtök virka innan frá. Ég hafði auðvitað fylgst með ýmsu sem Viðskiptaráð hafði gert í gegnum tíðina, eða Verslunarráð, eins og það kallaðist einu sinni," segir Svanhildur og vísar þar til nafnbreytingarinnar sem gerð var árið 2005. „Það kom samt óneitanlega frekar flatt upp á mig þegar einn vinur minn sagði: „Þú veist að núna ert þú Villi Egils þinnar kynslóðar!" Vilhjálmur Egilsson er óneitanlega eftirminnilegur í þessu starfi, enda var hann framkvæmdastjóri hjá Verslunarráði í tæp tuttugu ár, en ég get ekki lofað að ég verði jafn langlíf í þessu og hann," segir Svanhildur kímin.

Svanhildur lýsir Viðskiptaráði sem skemmtilegum og mikilvægum samtökum sem séu góð blanda af alls konar aðildarfélögum. „Við höfum þá sérstöðu meðal þessara helstu samtaka fyrirtækja, að við gerum ekki kjarasamninga og finnst við því að ýmsu leyti frjálsari í umræðunni. Við mótumst vissulega af aðildarfélögum okkar en það er skýrt tekið fram í lögum ráðsins hver tilgangur þess sé, sem er fyrst og fremst að styrkja umhverfi viðskiptalífsins og stuðla að viðskiptafrelsi."

Í störfum ráðsins sé þess gætt að tala fyrir heildina og horfa á stóru myndina. „Viðskiptaráð vinnur ekki fyrir ákveðinn geira heldur erum við í forsvari fyrir viðskiptalífið í heild sinni. Aðildarfélagar okkar eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá 25 ára einyrkjum sem eru að reka sitt fyrsta fyrirtæki og upp í stórfyrirtæki í alls konar geirum. Viðfangsefni og hagsmunirnir sem eru undir eru því margvíslegir og okkar hlutverk er að finna þráð sem tengir alla aðildarfélaga okkar saman," bætir hún við og segir umrætt hlutverk ráðsins oft snúast um að minna stjórnvöld á að veita fyrirtækjum andrými til þess að gera það sem viðskiptalífið geri best; sem sé að standa undir þeirri verðmætasköpun sem samfélagið þurfi á að halda.

Færri hendur standa undir gæðunum

Nýju fólki í brúnni fylgja oft nýjar áherslur. Spurð um hvort áherslur Viðskiptaráðs hafi breyst frá því að hún tók við sem framkvæmdastjóri, segir Svanhildur að ásýnd samtaka á borð við Viðskiptaráð taki alltaf einhverjum breytingum eftir því hver sé í brúnni og hverjir starfi á skrifstofunni hverju sinni.

„Þegar ég kom til starfa hafði stjórn ráðsins setið í um eitt ár en hún hefur auðvitað mikið um það að segja hvernig haldið er á spöðunum innan ráðsins," segir Svanhildur, sem kveðst mikill aðdáandi raunhagkerfisins. „Mér finnst skipta miklu máli að haft sé í huga hvar verðmætin verða til og að það endurspeglist í okkar störfum. Þegar við komum auga á verkefni eða vandamál sem þarf að leysa þá er mikilvægt að setja það í samhengi við daglegt líf fólks," segir hún og nefnir sem dæmi þegar Viðskiptaráð vann að áherslum sínum fyrir alþingiskosningarnar í síðasta mánuði.

„Í þessum áherslum fannst okkur mikilvægt að leggja það til grundvallar að íslenskt viðskiptalíf er ekki eyland og hvorki ríkisvaldið né almenningur heldur. Það hefur verið mikil tilhneiging í umræðunni til að búa til andstæða póla milli þessara aðila, en í rauninni lifum við í einhvers konar samfloti þar sem allir þessir þessir þættir verða að spila saman. Mér þykir mikilvægt að við hjá Viðskiptaráði drögum fram þessa sýn til að vinna gegn þessari skautun. Við þurfum að vinna með stjórnvöldum að því að gera vaxtarskilyrði viðskiptalífsins sem best. Ef við gerum það ekki getur atvinnulífið einfaldlega ekki staðið undir þeim lífsgæðum sem við sem samfélag viljum viðhalda hér á landi."

Svanhildur nefnir að landsmönnum finnist eðlilegt að lífsgæði séu fyrsta flokks, kaupmáttur mikill, þjónusta hins opinbera góð og aðgengi allra að menntakerfi og heilbrigðisþjónustu sé greið. Íslenskt samfélag standi hins vegar frammi fyrir mikilli áskorun þar sem aldurssamsetning þjóðarinnar sé að breytast.

„Það fæðast færri börn nú en áður og með betri heilsu á efri árum og meira langlífi eldist þjóðin. Sökum þess sjáum við fram á að það verði færri vinnandi hendur til þess að standa undir allri þjónustu og lífsgæðum sem við höfum vanið okkur á og okkur þykir eðlilegt að geta veitt. Til þess að ráða við þetta þurfa allir samvirkandi þættir að vera í lagi og mér finnst Viðskiptaráð gegna hlutverki í að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna. Að einhverju leyti gerist það einfaldlega með því að tala við fólk úr ólíkum áttum og fá það til að tala saman. Sem dæmi höfum við fengið fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar til þess að ræða ýmis mál við okkur, því okkur finnst eðlilegt að reyna að ná góðu samtali við þau til að öðlast skilning á þeirra sýn á hlutina. Við ræðum að sama skapi við stjórnvöld um ýmiss konar hluti sem og sérfræðinga úr atvinnulífinu."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .