Sveitarstjórn Skagafjarðar fjallaði um Aðalskipulag Skagafjarðar á fundi sínum fyrir helgi en félagsmálaráðuneytið hafði úrskurðað að Bjarni Maronsson, formaður skipulags- og bygginganefndar, hafi verið vanhæfur til að flytja tillögu um að Villinganesvirkjun skyldi bætt inn í kynningartexta um aðalskipulag og bar sveitarstjórn því að taka málið fyrir á ný til löglegrar meðferðar. Ákveðið var á fundinum að gert verði ráð fyrir Skatastaðavirkjun í aðalskipulagi en ekki Villinganesvirkjun.

Niðurstaða sveitarstjórnar varð sú að tillaga um að gert verði ráð fyrir vatnsaflsvirkjun við Villinganes í Aðalskipulagi var felld með 4 atkvæðum gegn 4 en Katrín María Andrésdóttir (D), sem tók sæti Bjarna Maronssonar (D) við afgreiðslu málsins, sat hjá. Hún lagði fram eftirfarandi bókun.
?Mikilvægt er að skapa sem besta sátt meðal Skagfirðinga um nýtingu auðlinda og uppbyggingu atvinnulífs í héraðinu. Undirrituð telur því heppilegt að sveitarstjórn gangist fyrir því að gerð verði, af óháðum aðila, könnun á afstöðu Skagfirðinga til virkjanaframkvæmda. Niðurstaða könnunarinnar verði leiðbeinandi fyrir sveitarstjórn þegar kemur að því að undirbúa tillögu að aðalskipulagi til formlegrar umræðu í sveitarstjórn, að aflokinni kynningu og fresti til athugasemda."

Talsverð umræða varð um mál Villinganesvirkjunar á fundi sveitarstjórnar eins og vænta mátti. Gunnar Bragi Sveinsson, fulltrúi Framsóknar, lét bóka eftirfarandi:
?Undirrituð áteljum meirihluta sveitarstjórnar harðlega fyrir ákvörðun sína um að hafna því að setja fyrirhugaða virkjun við Villinganes inná tillögu að aðalskipulagi. Meirihlutinn hefur engin haldbær rök lagt fram hvers vegna fyrirhuguð Villinganesvirkjun skuli ekki vera á skipulagi.
Fyrir fáum vikum voru rök meirihlutans fyrir því að hafna Villinganesvirkjun þau að umhverfi og ferðaþjónusta myndi bera skaða af. Talið er líklegt að Skatastaðavirkjun muni hafa meiri áhrif en Villinganesvirkjun (m.a. vegna stærðar sinnar) og því er ákvörðun meirihlutans óskiljanleg. Þá er ekki síður alvarlegt að með ákvörðun sinni er meirihlutinn að skaða hagsmuni heimamanna sem hafa virkjunarréttinn að Villinganesi og vaknar sú spurning hvort það sé gert með ráðnum hug. Flestum er kunnugt að Villinganesvirkjun er lykill Skagfirðinga að virkjunarrétti Skatastaða en það virðist ekki skipta meirihluta sveitarstjórnar neinu. Hörmum við skort meirhlutans á framsýni og vilja til að efla atvinnulíf í Skagafirði."