*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 11. desember 2020 07:02

Villusektir Skattsins námu 100 milljónum

Sektir sem Skatturinn sendi ranglega á yfir 400 félög voru vegna vanskila ársreiknings og námu 240 þúsund hver.

Júlíus Þór Halldórsson
Húsakynni Skattsins við Laugaveg.
Eyþór Árnason

Sektir sem Skatturinn sendi rúmum 400 íslenskum félögum ranglega vegna bilunar í tölvukerfi og greint var frá á miðvikudag voru vegna of seint skilaðra ársreikninga og námu 240 þúsund krónum hver, samtals um 100 milljónum króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hefur nú verið gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur.

Skili íslenskt félag ekki ársreikningi til ársreiknigaskrár innan tilsettra tímamarka liggur við því 600 þúsund króna stjórnvaldssekt. Sektin skal þó lækkuð ef reikningurinn berst innan tiltekinna marka eftir skilafrest, sem skiptist í nokkur þrep.

Berist reikningurinn innan 30 daga frá álagningu sektarinnar lækkar hún um 90% í 60 þúsund, en berist hann innan tveggja mánaða lækkar hún um 60% niður í 240 þúsund. Loks lækkar sektin um 40% niður í 360 þúsund ef ársreikningi er skilað innan þriggja mánaða frá álagningu sektar. Berist hann síðar nemur sektin sem fyrr segir 600 þúsund krónum.

Það var við framkvæmd lækkunar þessara sekta um 60% niður í 240 þúsund, sem rúmlega 400 félög bættust ranglega við lista þeirra félaga sem sektirnar fengu sendar, þrátt fyrir að hafa staðið skil á ársreikningi innan tilsettra tímamarka.

Í tilkynningu Skattsins um málið á miðvikudag kom fram að villan hefði þegar verið leiðrétt, og kröfurnar féllu niður í heimabanka viðkomandi félaga á miðnætti, og ættu þær því þegar að vera horfnar.