Þegar kom að því að meta stöðu og framhald kjarasamninga í janúar síðastliðnum var ekki sjálfgefið að Samtök atvinnulífsins myndu vilja að samningarnir giltu áfram út þetta ár. Forsendur þeirra höfðu ekki haldið.

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, fráfarandi formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), í ræðu sinni á fundinum sem nú stendur yfir.

Vilmundur rakti nokkur af þeim loforðum sem ríkisstjórnin hafði ekki staðið við, en bætti því við að SA hefðu tekið þá ákvörðun að framlengja samningnum til að efna ekki til óvissu á vinnumarkaði.

„Í þeim samningum er það markmið SA að semja til langs tíma þar sem launahækkanir taka mið af framleiðniaukningu í atvinnulífinu,“ sagði Vilmundur.

„Geta atvinnulífsins til að standa undir auknum kaupmætti launa ræðst líka af því hvort stöðugleiki ríki í efnahagsmálum og verðbólga sé lág, að það takist að auka fjárfestingar, að skattkerfið styðji við fjárfestingar, að fyrirtækin búi við samkeppnishæft rekstrarumhverfi og að skólakerfið tryggi að atvinnulífið fái til starfa fólk með viðeigandi menntun.“

Vilmundur sagi að meðal þjóðarinnar ríkti „djúpur skilningur“ á því að verðmætasköpun fyrirtækjanna standi undir velferðarkerfinu. Sá skilningur hefði þó því miður ekki verið til staðar hjá núverandi stjórnvöldum.

„Á sama tíma hefur fólk áhyggjur af því að rafmagnið detti út í óveðrum, að netsamband sé ótryggt,að viðhaldi vega sé ekki sinnt og öryggisleysi vegna heilbrigðisþjónustu,“ sagi Vilmundur.

„Fólk horfir á opinber störf hverfa á brott, og innviði samfélagsins ganga úr sér. Miklar áhyggjur eru af gríðarlegri sértækri skattheimtu á landsbyggðarfyrirtækin þar sem milljarðatugir eru sogaðir burt til ríkisins. Þegar vel gengur í atvinnulífinu mælist það í auknum hagvexti og fólk sér að verið er að byggja upp, fjárfesta og búa í haginn til framtíðar. Við skynsamlega efnahagsstefnu tekst að auka kaupmátt og bæta lífskjör. Störfum fjölgar og skatttekjur hins opinbera hækka. Svigrúm allra til að takast á við nýja hluti batnar. En þetta gerist ekki nema menn vilji vinna saman, hafa sameiginleg markmið og fara ákveðna leið.“