Með því að mæla fyrir frumvarpi um kolefnisskatt á rafskaut í orkufrekum iðnaði frá ársbyrjun 2013 hefur fjármálaráðherra gengið gegn samkomulagi sem gert var við Samtök atvinnulífsins og stóriðjufyrirtækin í desember 2009. Þetta segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, í grein í Fréttablaðinu í dag.

Segir hann að í samkomulaginu hafi Alcoa á Reyðarfirði, Alcan í Straumsvík, Elkem og Norðurál fallist á að greiða fyrirfram tekjuskatta á árunum 2010-12 til að létta undir með rekstri ríkissjóðs. Þess í stað hafi ríkið fallið frá álagningu kolefnisgjalds á rafskaut.

„Áform ríkisstjórnarinnar eru skýrt brot á samningunum við fyrirtækin. Kolefnisgjald á rafskaut er hvergi innheimt í ESB og þýddi að starfsskilyrði fyrirtækjanna hér yrðu mun verri en annarra. Stóriðjufyrirtækin munu þurfa að kaupa hluta af losunarheimildum frá 2013 og ríkissjóðir á evrópska efnahagssvæðinu munu öðlast hlutdeild í tekjum vegna sölu losunarheimilda á markaði. Íslenska ríkið mun væntanlega öðlast hlut í tekjum vegna sölu losunarheimilda strax 2012 og enn meiri 2013,” segir Vilmundur.

Hann segir jafnframt að í ESB séu fyrirtæki í orkufrekum iðnaði undanþegin viðbótar skattlagningu á losun. Tvöföld skattheimta sé ekki til þess fallin að draga frekar úr losun heldur til að auka kostnað fyrirtækjanna og rýra samkeppnisstöðu þeirra gagnvart fyrirtækjum utan evrópska efnahagssvæðisins.