Aðspurður hvort Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, telji að orðspor og trúverðugleik SA hafi skerst eftir bankahrunið segist Vilmundur ekki telja að svo sé.

Í viðtali við Vilmund er fjallað um stöðuna á vinnumarkaði, samskiptin við ríkisstjórnina og málefni ESB innan SA.

Vilhjálmur segir að hins vegar sé ekki hægt að neita því að SA hafi ekki, frekar en svo margir aðrir, hlustað á viðvaranir þegar varað var við því hvert hagkerfið væri að stefna.

„Við gerðum það ekki og við þorum alveg að viðurkenna það. Maður sér það líka eftir á að það voru ýmsar vísbendingar sem við hefðum átt að taka alvarlega en gerðum ekki, því miður,“ segi Vilmundur.

„Það hefði þó e.t.v. ekki breytt miklu þó SA hefðu séð þetta fyrir en ég tel að við höfum áttað okkur á því að þarna var margt í ólagi. Við leggjum mikla áherslu á það að það sé algjörlega óásættanlegt að fyrirtæki, eða stjórnendur þeirra, brjóti lög og reglur. Það er ýmislegt að koma í ljós núna, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar, að menn hafi verið að fara á svig við lög og reglur.“

Nú hafa margir haldið því fram að hér hafi verið of mikið frelsi og kerfið meira og minna eftirlitslaust, tekur þú undir það?

„Við getum orðað það þannig að ramminn hafi e.t.v. ekki verið nógu stífur,“ segir Vilmundur.

„En við verðum þó að spyrja okkur hvor að ramminn hafi haft einhver áhrif, því það skiptir þá sem ætla sér að gera hlutina á ákveðin hátt litlu máli hvernig ramminn er. Ég held að það sé umhugsunarvert, það að lög og reglur hefðu kannski ekki skipt svo miklu máli þegar uppi var staðið.“

Vilmundur segir það skelfilega tilhugsun hversu stuttan tíma það hafi tekið að rústa heilu þjóðfélagi.

„Helstu leikendur í íslenskum fjármála- og útrásarfyrirtækjum þurftu ekki mikinn tíma til að keyra allt í rúst. Þeim tókst að setja mjög vel sett þjóðfélag í þá stöðu sem við erum í dag á örfáum árum,“ segir Vilmundur.

_____________________________

Nánar er rætt við Vilmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .