Það verður ekki komist hjá því að spyrja Vilmund Jósefsson, formann Samtaka atvinnulífsins, um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) en mikið hefur verið um það deilt innan SA hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB eða ekki.

Í viðtali við Vilmund er fjallað um stöðuna á vinnumarkaði, samskiptin við ríkisstjórnina og málefni ESB innan SA.

„Nú er umsóknarferlið um aðild að ESB komið af stað og þrátt fyrir mjög skiptar skoðanir á þessu hér innan SA erum við þó öll hlynnt því að fyrst að þetta ferli er komið af stað að það taki allir þátt í því að gera samningana sem besta og ná sem bestri niðurstöðu. Um það er enginn ágreiningur,“ segir Vilmundur.

„Við eigum öll að leggjast á eitt um að ná sem bestum samningum. Síðan mun koma til þjóðaratkvæðagreiðslu og þá eiga menn sjálfsagt eftir að taka upp gömlu góðu vopnin og byrja að slást í aðdraganda hennar. Það held ég að sé hinn rétti vettvangur. Það eru mörg aðildarfélög sem eru mjög hlynnt en önnur mikið á móti.“

Og þú, komandi upphaflega frá Samtökum iðnaðarins, ert væntanlega fylgjandi aðild?

„Já, ég hef ekki dregið neinn dul á það. Ég tel að þetta sé hin eina rétta leið til þess að við getum þróast áfram hér sem öflugt þjóðfélag, þ.e. að taka þátt í þessu samstarfi Evrópuþjóða,“ segir Vilmundur.

Er það gjaldmiðilinn sem veldur því eða eitthvað annað?

„Fyrst og fremst er það gjaldmiðillinn. Ég sé ekki hvernig við sem örþjóð með örhagkerfi ætlum okkur að vera áfram í samfélagi þjóðanna með örmynt. Í mínum huga gengur það ekki upp,“ segir Vilmundur.

„Ef við horfum til baka þá sjáum við miklar og óeðlilegar sveiflur í hagkerfinu vegna krónunnar. Við vorum alltaf að fella gengið til að bjarga okkur út úr vandræðum, m.a. vegna aflabrests eða annarra þátta. Þá tóku menn alltaf til við krónuna og leystu vandamálin á sem ódýrastan hátt. Þetta gengur bara ekki í dag. Menn verða að fara í aðrar hagstjórnaraðgerðir og taka öðruvísi á málum. Ég sé ekki hvernig við ætlum að gera þetta án þess að taka upp annan gjaldmiðil og þá traustan gjaldmiðil með bakhjarl í stórum seðlabanka.“

En fyrst að hér var minnst á erfið samskipti ykkar við ríkisstjórnina. Nú hafa væntanlega margir innan SA vonast eftir því að fá ríkisstjórn sem myndi hafa það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB. Það fenguð þið en það lítur út fyrir að þið hafið fengið margt annað með sem ykkur líkar ekki, eða hvað?

„Ég get ekki tekið undir það að SA hafi verið að vonast eftir ríkisstjórn sem myndi sækja um aðild að ESB, en það voru  ákveðin samtök innan SA sem voru mjög áhugasöm,“ segir Vilmundur.

„Hins vegar er stóra vandamálið það, að þegar við erum að tala við ríkisstjórnina þá höfum við á tilfinningunni að við séum að tala við 5 ríkisstjórnir. Þarna eru ráðherrar innanborð sem fara eingöngu eftir eigin geðþótta en ekki því sem aðrir forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt upp með. Það einfaldlega gengur ekki.“

_____________________________

Nánar er rætt við Vilmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .