Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands kynntu á fundi á Hilton Hótel Nordica í morgun skýrslu um tillögur til umbóta í skattakerfi atvinnulífsins. Kom þar fram hörð gagnrýni á skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem gert hafi breytingar á skattkerfinu sem hafi orðið atvinnulífinu til tjóns.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins setti fundinn og sagði m.a.:

„Okkur í forystu atvinnulífsins skorti hugmyndaflug til að ímynda okkur að ríkisstjórnin myndi færa skattkerfið áratugi aftur í tímann. Fórna einfaldleika þess og gegnsæi, gera það ósamkeppnisfært við nálæg ríki og taka upp að nýju skatta sem eru óréttlátir og flest nálæg ríki hafa losað sig við. Þar að auki munu  margar þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd ekki færa ríkissjóði auknar tekjur. Heldur þvert á móti draga úr skatttekjum ásamt því að draga úr umsvifum í þjóðfélaginu og um leið seinka fjárfestingum og þeim bata sem efnahagslífið þarf svo sannarlega á að halda.”

Til svara á fundinum var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem dró upp allt aðra mynd af grundvelli og afleiðingum skattabreytinganna og rökstuddi nauðsyn skattlagningar.

„Það er nefnilega þannig að skattar eru mikilvægir. Skattar eru nauðsynlegir, skattar eru óumflýjanlegir ef við ætlum að reka þróað nútíma samfélag. Ég legg áherslu á orðið samfélag, af því að við erum saman í félagi – félaginu um Ísland og það félag grundast ekki síst af skattlagningu. Þar er ákveðið hvaða hluti þjóðarframleiðslunnar fer til samneyslu og hvernig birgðunum er dreift.”