Möguleg sameining Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs gæti haft mjög góðar afleiðingar en með sameiningu væri þarna orðin til mjög öflugur málsvari atvinnulífsins.

Þetta segir Vilmundur Jósefsson, starfandi formaður SA í samtali við Viðskiptablaðið en eins og fram kom fyrir stundu fór Vilmundur þess á leit  við Viðskiptaráð Íslands í dag að teknar yrðu upp viðræður um sameiningu samtakanna. Í bréfi sem Vilmundur sendi Viðskiptaráði kemur fram að markmið slíkra breytinga væri að efla samtök atvinnurekenda, auka skilvirkni í rekstri og virkja betur kraft og frumkvæði atvinnurekenda til beinnar þátttöku í endurreisn atvinnulífsins.

„Við leitum alltaf leiða til að spara fjármagn og verða öflugri málsvari atvinnulífsins,“ segir Vilmundur í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um tildrög sameiningarinnar.

Hann nefnir sem dæmi að í mörgum tilfellum eigi fyrirtæki aðild að báðum samtökum þannig að með sameiningu geti sparast nokkurt fé.

Þá segir Vilmundu að SA líti svo á að mikilvægt sé að leita allra leiða til að efla hagsmunasamtök atvinnulífsins. Hann segist búast við því að Viðskiptaráð taki tíma til að íhuga málið en ekkert sér fyrirfram ákveðið með sameiningu samtakanna.