„Rauða ljósið hefur logað frá efnahagshruni. Það þarf ekki að vera svona,“ sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsin, við upphaf opins fundar um stöðuna eftir hrun. Samtökin kynntu þar ritið Rjúfum kyrrstöðuna - leiðin til betra lífs.

Í ritinu kemur fram að SA sætti sig ekki við núverandi horfur í efnahagsmálum. Þar er varpað fram hugmyndum um markvissar aðgerðir sem koma eiga efnahagslífinu á skrið.

Aðgerðirnar eru í grófum dráttum eftirfarandi:

  • Móta verður efnahagsstefnu til lengri tíma sem snýst um stöðugleika með lágri verðbólgu, viðráðanlegu vaxtastigi og raunhæfu gengi gjaldmiðilsins. Hagstjórnin verður að hvetja til nýsköpunar, fjárfestingar, atvinnu, hagvaxtar og betri lífskjara.
  • Móta þarf trúverðuga stefnu í peningamálum til næstu framtíðar og afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst.
  • Árásum stjórnvalda á tilteknar atvinnugreinar verður að linna. Hvergi eru jafnmiklar hindranir lagðar á erlendra fjárfestingu og á Íslandi skv. könnun OECD.
  • Stuðla verður að festu og aga í ríkisfjármálum með lögfestingu fjármálareglu.
  • Ísland er háskattaríki með einna hæst opinber útgjöld OECD ríkja að frátöldum lífeyrisgreiðslum. Stýring ríkisfjármála ætti að beinast að jöfnuði í ríkisbúskapnum og að draga úr reglubundnum útgjöldum ríkissjóðs þannig að tekjurnar dugi fyrir þeim.
  • Þrír kostir eru í gjaldmiðilsmálum Íslendinga, að halda krónunni sem gjaldmiðli, taka upp evru samhliða aðild að ESB og einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Íslenska krónan verður ekki aflögð á næstu árum og góð hagstjórn treystir hana sem gjaldmiðil til skemmri sem lengri tíma.