Fast gengi krónunnar á næstu árum er besta framlagið til efnahagslegs stöðugleika að mati Samtaka atvinnulífsins og rétt er að sameinast um fast gengi og gera næstu kjarasamninga á þeim grunni.

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, fráfarandi formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), í ræðu sinni á fundinum sem nú stendur yfir.

Vilmundur sagði Íslendinga hafa mikla langvarandi reynslu af víxlhækkunum launa og verðlags. Þar reyni hver að ota sínum tota og ná sem mestum launahækkunum fyrir sig, eins og Vilmundur orðaði það.

„Svo kemur hver hópurinn á fætur öðrum og bætir aðeins við kröfugerðina. Þetta leiðir til innistæðulausra kauphækkana, viðvarandi verðbólgu, stöðugt lækkandi gengis krónunnar og þannig heldur þetta áfram hring eftir hring,“ sagði Vilmundur.

„Þegar upp er staðið hefur enginn fengið neitt og allir tapað. Lífskjörin hafa ekki batnað. Nú er hættan sú að launahækkanir heilbrigðisstétta breiðist yfir allan vinnumarkaðinn. Við sjáum hvern hópinn af öðrum grípa til tiltækra aðgerða og þeir ætla greinilega ekki að sætta sig við neitt minna en næsti hópur á undan.“

Þá sagði Vilmundur að í stað þess að „hrekjast úr einu í víginu í annað“ verði stjórnvöld að móta trúverðuga stefnu um stöðugleika til næstu ára.

„Það er einnig mikilvægt fyrir stöðugleika í efnahagslífinu að það ríki pólitískur stöðugleiki í landinu. Kollsteypur í pólitík, þar sem sífellt er verið að breyta um stefnu, eru ekki til þess fallnar að styðja við stöðugleika í efnahagslífinu,“ sagði Vilmundur.“

Umræða um verðtryggingu er gott dæmi um skaðlega pólitíska óvissu sem verið er að skapa. Allir eru sammála um að verðtrygging er ekki vandamál þegar verðbólgan er lág. Nú er mikið kapphlaup um að lofa að afnema verðtrygginguna. En enginn lofar af afnema verðbólguna.“