Það eru verulegar líkur á því að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar 2013. Aðstæður bjóða hins vegar alls ekki upp á svigrúm til frekari launahækkana en þeirra sem um var samið fyrir nær ári síðan.

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Vilmundur fjallaði í ræðu sinni stuttlega um gerð síðustu kjarasamninga sem eiga að gilda til ársins 2014. Hann sagði að kjarasamningarnir hefðu verið dýrir atvinnulífinu en gert hafði verið ráð fyrir því að heildarkostnaður á öllum samningstímanum væri um 13%.

„Kjarasamningarnir eru bundnir forsendum um þróun kaupmáttar, verðbólgu, gengis krónunnar og um efndir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar,“ sagði Vilmundur.

„Samningsaðilar voru sammála um að ekki kæmi til uppsagnar samninga í janúar síðastliðnum þrátt fyrir að verulega skorti á að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hafi verið efnd. Í janúar næstkomandi stefnir í að gengi krónunnar verði mun lægra en forsendur samninganna gera ráð fyrir. Launakostnaður hefur aukist verulega meira en samningarnir fólu í sér þar sem launaskrið hefur mælst um 3% síðastliðna 12 mánuði. Einnig ríkir óvissa um þróun kaupmáttar þar sem verðbólga virðist ætla verða meiri en gert var ráð fyrir. Vandi atvinnulífsins er sá að gert var ráð fyrir að aukin umsvif í hagkerfinu myndu létta undir með fyrirtækjunum að standa undir launahækkunum. Enn eru fjárfestingar í algeru lágmarki og ekki sjáanlegar neinar verulegar breytingar þar á.“

Vilmundur sagði SA hafa undir höndum margítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir fjárfestingum í virkjunum, verkefnum tengdum orkunýtingu og mikilvægum innviðum í landinu ásamt loforðum um önnur atriði eins og samstarf um sjávarútvegsmál.

„Það eru SA mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli aftur og aftur hafa brugðist eigin orðum, skrifuðum og sögðum,“ sagði Vilmundur.

„Tilkynning SA síðastliðið haust um að samtökin muni ekki hafa frumkvæði að neinum frekari samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var því sjálfgefin. Það hefur engan tilgang að leita eftir nýjum loforðum sem hvorki er geta né vilji til að efna.“

Kvótafrumvarpið færir sjávarútveginn áratugi aftur í tímann

Vilmundur vék í ræðu sinni að stöðu sjávarútvegsins og sagði að um það ríkti mikil samstaða meðal landsmanna að reka íslenskan sjávarútveg sem samkeppnishæfa atvinnugrein í fremstu röð á sínu sviði í heiminum og án ríkisstyrkja.

„Samtök atvinnulífsins höfðu meðal annarra að því frumkvæði að skipuð var svokölluð endurskoðunarnefnd um sjávarútveg með víðtækri þátttöku hagsmunaaðila á árinu 2009,“ sagði Vilmundur.

„Hún skilaði áliti rúmu ári síðar með samkomulagi. Þá hafði ríkisstjórnin sögulegt tækifæri til þess að skapa víðtæka sátt um framtíðarskipan sjávarútvegsmála. En það er kunnugra en frá þurfi að segja að niðurstaða nefndarinnar var að engu höfð. Þess í stað hefur málið verið unnið í myrkum afkimum stjórnarráðsins. Niðurstaðan er sú að lagt er til að breyta grundvallarforsendum í rekstri fyrirtækjanna með því annars vegar að afnema frjálst framsal aflahlutdeildar og auka pólitíska úthlutun aflaheimilda og hins vegar með ofurskattlagningu sem leiða mun til fjöldagjaldþrota í greininni. Þessi áform munu færa umhverfi íslensks sjávarútvegs áratugi aftur í tíma og um þau getur aldrei orðið sátt – hvorki við greinina sjálfa né annað atvinnulíf í landinu.“