Það þarf engum að koma á óvart að Samtök atvinnulífsins bregðist hart við þegar vegið er að grundvelli sjávarútvegsins og boðað að gera eigi upptækar veiðiheimildir og taka upp handstýrða ríkisúthlutun kvóta eftir geðþótta stjórnmálamanna. Með þessu er horfið marga áratugi aftur í tímann til miðstýringar og skömmtunar.

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka Atvinnulífsins, á aðalfundi félagsins í dag.

„Samtökin hafa kallað eftir samræðu við stjórnvöld um framtíð greinarinnar og kynnt hugmyndir sem unnt er að ræða og vilja kanna hvort finna megi sameiginlega fleti sem tryggja bæði hagsmuni atvinnugreinarinnar og nálgast þau pólitísku markmið sem stjórnvöld vilja ná. Niðurstaða verður að liggja fyrir áður en kjarasamningarnir verða undirritaðir. Óljós áform stjórnvalda hafa þegar valdið miklu tjóni ekki bara fyrirtækjunum heldur einnig starfsfólki þeirra og fjölmörgum öðrum sem byggja afkomu sína á viðskiptum við sjávarútveg. Stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin eru undirstaða byggðar um allt land og flest þeirra hafa starfað á sama stað um áratuga skeið. Atlaga að rekstrarforsendum þeirra er atlaga að þessum byggðum. Það á vart að þurfa að taka það fram að efnahagsleg áhrif sjávarútvegsins hríslast um allt þjóðfélagið og það er mikið hættuspil sem ríkisstjórnin spilar í þessu máli.

Íslendingar geta verið stoltir af sjávarútveginum, fyrirtækjunum og starfsfólkinu, sem er fremstu röð og markmið Samtaka atvinnulífsins er að tryggja að svo geti verið um ókomna tíð,“ sagði Vilmundur.