Talið er líklegt að bresk stjórnvöld muni bjóða bíleigendum þar í landi styrk að fjárhæð 2.000 sterlingspunda (jafnvirði 375.000 íslenskra króna) fyrir að fleygja gamla bílnum sínum og kaupa nýjan. Með því feta Bretar í fótspor stjórnvalda í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Spáni sem nú þegar hafa gripið til hliðstæðra ráða til þess að örva sölu nýrra bíla í þessum löndum.

Í frétt BBC um málið segir að framleiðsla nýrra bíla í Bretlandi hafi dregist saman um 59% í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra sem er mesti samdráttur í einum mánuði frá því að skráning hófst árið 1970.

Á sama tíma og þessi mikli samdráttur varð í bílasölu í Bretlandi fjölgaði nýskráningum bíla í Þýskalandi um 40% í marsmánuði og um 10% í Frakklandi eftir að þessi ríki tóku upp úreldingarstyrki vegna gamalla bíla. Í Þýskalandi fá bíleigendur 2.500 evrur (420.000 ísl. kr). í styrk fyrir að skipta út bíl sem er 9 ára eða eldri fyrir nýsmíðaðan bíl. Í Frakklandi er styrkurinn 1.000 evrur (168.000 ísl. kr.). Þá hafa úreldingarstyrkir af þessu tagi einnig verið teknir upp á Spáni.