Embætti forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands er laus til umsóknar og hefur starfið verið auglýst. Það er Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra sem skipar forstöðumann Kvikmyndasafnsins til fimm ára í senn. Umsóknarfrestur er til 25. júní og er gert ráð fyrir að skipað verði í embættið frá og með 1. ágúst næstkomandi. Erlendur Sveinsson er nú forstöðumaður Kvikmyndasafnsins.

Fram kemur í auglýsingu um starfið í Lögbirtingablaðinu í dag að hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir sem og samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Kvikmyndasafnið hefur eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Safnið stendur fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist, sér um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins og skapar fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir og efla kvikmyndamenningu á Íslandi.