Embætti þjóðleikhússtjóra er auglýst laust til umsóknar í dag og hafa þeir sem vilja frest til 1. september til að hugsa sig um og sækja um stöðuna. Ráðið verður á Nýársdag 2015. Þjóðleikhússtjóri heyrir undir Kjararáð og er með 659.654 krónur í grunnlaun á mánuði.

Tinna Gunnlaugsdóttir hefur gegnt stöðu þjóðleikhússstjóra síðan árið 2004 eða í 10 ár. Skipað er í stöðuna í fimm ár í senn.

Fram kemur í auglýsingu mennta- og menningarmálaráðherra að í stöðuna skal skipaður einstaklingur með menntun á sviði lista og staðgóða þekkingu og reynslu á starfi leikhúsa. Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, með brennandi áhuga á sviði leiklistar og hæfileika til nýsköpunar.