Búist er við að eftirspurn eftir áli dragist saman um 2-3% á þessu ári sem dregur mjög úr líkum á hækkun álverðs. Er þetta mat hollenska iðnaðar- og fjárfestingafélagsins Vimetco NV sem sérhæfir sig í áliðnaði.

Álverð virðist ekki ætla að ná sér á flug þó það hafi hækkað úr 1.254 dollurum þann 25. febrúar í 1.551 dollar 8. maí samkvæmt markaðstölum LME í London. Frá 8. maí hefur verið lækkað á ný og var komið niður í 1.430 dollara sl. föstudag.

Vimetco sem heldur aðalfund sinn 16. júní segir að búast við áframhaldandi birgðasöfnun á áli út þetta ár. Það verði ekki fyrr en ganga fer verulega á birgðir sem búast megi við hækkun álverðs á ný. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim eru þó talin geta skipt sköpum um þróunina á næstu mánuðum og misserum.