Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins, segir að Íslendingar eigi ekki að gera ráð fyrir því að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði auðveldar. Þvert á móti, segir hann.

ESB sé vinsamlegt í garð hugsanlegra aðildarríkja en í viðræðunum sjálfum muni framkvæmdastjórnin verða erfiðari heldur en „flest ykkar getið ímyndað ykkur," sagði hann á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja í morgun. Ekki megi heldur búast við skjótri niðurstöðu í slíkum viðræðum.

Hann tók þó fram að hann sjálfur hefði persónulega mikla trú á Evrópusambandinu og evrunni. Aðild og upptaka evru hefði haft jákvæð áhrif á Finnland „og ég tel enn að Ísland muni hagnast á því að vera í ESB og taka upp evru."

Hraða endurreisn bankakerfisins

Jännäri sagði m.a. í erindi sínu í morgun að hraða þyrfti endurreisn bankakerfisins. Sömuleiðis þyrfti að reisa við orðspor Íslands á alþjóða vettvangi. Til þess að svo mætti verða þyrfti fljótlega að finna lausn sem stærstu erlendu kröfuhafarnir gætu sætt sig við. Hann hefði heyrt að sumir þeirra væru óánægðir með þróun mála.

Fram kom einnig í máli Jännäri að hann væri ánægður með að Íslendingar væru ekki að reyna að fara argentínsku leiðina eins og einhverjir fremur„dúbíus prófessorar", eins og hann orðaði það, hefðu mælt með í fjölmiðlaviðtölum. Framtíð Íslands væri í Evrópu en ekki í Argentínu eða Zimbabwe.

Jännäri gerði í vetur, sem kunnugt er, skýrslu fyrir ríkisstjórnina um reglur og eftirlit á íslenskum fjármálamarkaði og má finna hana hér.