Áhugafólk um réttarfar ætti að fá eitthvað fyrir sinn snúð í erjum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) við Bjórland og Þórgný Thoroddsen annars vegar og Sante ehf., Santewines SAS og Arnar Sigurðsson hins vegar. Allir stefndu, hér eftir titlaðir Bjórland og Sante, hafa skilað greinargerðum í málunum og krefjast frávísunar þeirra á þeim grunni þess að ÁTVR hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málanna þar sem stofnunin sé einfaldlega rangur aðili til að standa að þeim. Slíkt er afar fátítt í íslenskri réttarframkvæmd en þó ekki óþekkt.

ÁTVR þarf væntanlega ekki að kynna fyrir lesendum en stofnunin hefur lögum samkvæmt einkarétt á sölu og afhendingu áfengis í smásölu hér á landi. Á síðasta ári var vefsíðunni Bjórlandi ýtt úr vör en þar gefst fólki, sem náð hefur áfengiskaupaaldri, kostur á að kaupa bjór frá íslenskum handverksbrugghúsum gegnum netið. Varninginn má síðan ýmist sækja í vöruhús eða fá sendan heim að dyrum. Fyrr á þessu ári fór Sante.is í loftið en virkni hennar er áþekk þótt vöruúrvalið sé annað.

Eftir því sem netverslun óx fiskur um hrygg hefur Íslendingum staðið til boða að panta áfengi að utan og fá sent heim. Aftur á móti er álitamál af hálfu ÁTVR hvort það standist lagabókstafinn að netverslun annarra en ÁTVR tíðkist innanlands. Staða Bjórlands annars vegar og Sante ehf., Santewines SAS og Arnars Sigurðssonar hins vegar, er ekki sú sama hvað þetta varðar þar sem Bjórland er hefðbundið íslenskt einkahlutafélag sem rekur netverslun sína hér á landi.  Sante ehf. er íslenskt einkahlutafélag og hvorki það félag né Arnar Sigurðsson reka netverslun. Santewines SAS er svo franskt einkahlutafélag sem rekur netverslun sína frá Frakklandi.

Davíð gegn Golíat

Að mati ÁTVR hefur þessi starfsemi brotið gegn fyrrnefndum einkarétti stofnunarinnar og hefur hún haft horn í síðu vefsíðnanna af þeim sökum. Sumarið 2020 og aftur ári síðar kærði ÁTVR Bjórland og síðar Sante til lögreglu. ÁTVR hefur einnig sent sýslumanni erindi þar sem hún telur að starfsemi þeirra brjóti í bága við heildsöluleyfi aðilanna. Hvorki lögregla né sýslumaður hafa gripið til aðgerða í tilefni af erindum ÁTVR.

Sante hefur svarað fyrir sig og lagt fram kæru gegn forstjóra ÁTVR, Ívari J. Arndal, fyrir rangar sakargiftir. Þá hefur félagið einnig sent erindi til Hugverkastofu til að fá vörumerkin „VÍNBÚГ og „VÍNBÚÐIN“ felld niður. Hefur slíkt verið fallist á í tilfelli vínbúðar, það er án greini, en hitt málið er enn til meðferðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .