Fyrirhugað er að opna vínbúð í Spönginni í Grafarvogi í lok sumars. Nákvæm dagsetning liggur hins vegar ekki fyrir þar sem tafir hafa orðið á afhendingu húsnæðisins. Þetta segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, í samtali við Morgunblaðið .

„Vínbúðin verður opnuð við hliðina á Hagkaupum en nú standa yfir framkvæmdir við að minnka verslun Hagkaupa og munum við opna þar,“ segir Sigrún.

Eldri Vínbúð í Grafarvogi var lokað árið 2009 en Sigrún segir alltaf hafa staðið til að opna á ný.„Húsnæðið var í raun óhentugt, of lítið og hentaði illa. Það stóð alltaf til að opna aftur en það hefur alltaf verið yfirlýst stefna að Grafarvogurinn sé svæði þar sem heppilegt væri að hafa vínbúð,“ segir hún.