Verðbreyting, sem er að meðaltali 4,38% til hækkunar, tók gildi í Vínbúðunum í gær.

Fram kemur í tilkynningu frá Vínbúðinni að verðinu var breytt á 1023 tegundum af þeim 1706 tegundum áfengis sem eru í boði í Vínbúðunum, 160 tegundir lækkuðu í verði, 863 hækkuðu en verð verður áfram óbreytt á 683 tegundum.

„Með verðbreytingunni koma Vínbúðirnar til móts við óskir innflytjenda um tíðari verðbreytingar vegna ástandsins í efnahagsmálum og mikilla gengisbreytinga,“ segir í tilkynningu Vínbúðarinnar.

Þá kemur fram að álagningarprósenta ÁTVR helst óbreytt eins og áður og áfengisgjöld breytast ekki heldur.