Nýverið fór síðan Bjuro.is í loftið. Vefsíðan einfaldar umsóknarferli innan stjórnsýslunnar. Þar er hægt að svara nokkrum spurningum og þar með fást upp sérsniðnar leiðbeiningar sem líkja má við uppskrift að umsóknarferli. Í uppskriftinni er hægt að finna alls kyns upplýsingar um eyðublöð sem þarf að fylla út, kostnað og fylgiskjöl, allt á einum stað. Þá er að finna þjóðráð á vefsíðunni sem sparar fólki sporin.

Á Bjuro.is er hægt að finna leiðbeiningar um hvernig á að haga umsókn um heimagistingu, rekstrarleyfi gististaðar og um stuðning vegna kaupa á fyrstu íbúð. Jón Örn Árnason, forsvarsmaður Bjuro, segir að fólk kannist við þetta vandamál. „Af hverju sagði mér þetta enginn strax?“ sé dæmi um algeng viðbrögð. Jón segir að regluverk hins opinbera geti alveg bugað fólk og það spyr sig: „Af hverju er þetta gert svona flókið?“

„Maður hefur tuðað yfir þessu yfir eldhúsborðið, en við hjá Bjuro áttuðum okkur á því að það þýðir ekkert að tuða yfir þessu. Það þarf að breyta þessum veruleika sem við lifum í sjálf,“ segir Jón. Hann segir þó að ferlið sé á fyrstu skrefum og að aðstandendur síðunnar sjái um verkefnið í frítíma. „Það er ekki enn búið að ganga frá neinni viðskiptaáætlun. Það er bara eitthvert mótíf sem rekur okkur áfram,“ tekur Jón Örn fram.

Vonar að þetta einfaldi ferlið

Til að byrja með þá tóku aðstandendur Bjuro fyrir stuðninginn við kaup á fyrstu íbúð í ágúst. „Við gerðum það áður en lögin voru samþykkt. Okkur hefur þótt vanta upp á heildarpælingu í lagafrumvörpum, þ.e. hver á réttindi, hvert fer þetta og svo framvegis. Við færðum þetta í form ákvörðunartrés þannig að þú fengir skýra hugmynd um hvað málið snýst með því að svara nokkrum spurningum,“ tekur Jón fram.

Þegar umræður berast að skráningu heimagistingar segir Jón: „Í rauninni held ég að þetta hafi átt að vera miklu einfaldara. Nú liggur það fyrir að þú þurfir að skrá heimagistingu hjá sýslumanni, sem hefði verið mjög þægilegt. Eins og staðan er núna þarf að fá starfsleyfi frá heilbrigð- iseftirliti og það kostar einar 35 þúsund krónur í Reykjavík. Það er flækjustig sem hefur gleymst að hugsa út í að létta af.

Ef heimagisting uppfyllir ekki nánar tilgreind skilyrði verður að sækja um rekstrarleyfi fyrir gististað. Þegar við gerðum uppskriftina fyrir rekstrarleyfið, þá var ferð til átta mismunandi stofnana lágmarkið. Nú er búið að einfalda ferlið töluvert fyrir heimagistingu, en það var ekki numið á brott leyfi frá heilbrigð- iseftirlitinu. Ég veit ekki hvers vegna svona fáir hafa skráð sig en ég stoppaði alla vegana sjálfur í ferlinu, þegar ég kannaði það hvernig þetta leit út. Það gæti verið út af þessu, sem fólk hefur ekki skráð heimagistingu eða það gæti verið það að fólk sé ekki byrjað að huga að þessu,“ tekur Jón fram.