Ákveðin lausn á vanda sem fylgir öfugum samruna hefur verið kynnt stjórnvöldum og er næsta skref að leita bindandi álits skattayfirvalda á því hvort lausnin sé tæk að þeirra mati, segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. Algengt var á árum áður að fjárfestar stofnuðu nýtt félag sem keypti allt hlutafé í því félagi sem fjárfestar höfðu áhuga á. Kaupin voru síðan fjármögnuð með lántöku móðurfélagsins og í kjölfarið voru félögin tvö sameinuð með öfugum samruna.

Tilgangurinn með þessu var að nýta fjármagnskostnað af lánunum til að lækka tekjuskattstofn hins sameinaða félags. Öfugur samruni sem þessi tíðkast almennt ekki lengur eftir athugasemdir frá ríkisskattstjóra og eftir að dómur féll í máli Toyota á Íslandi og Samherja í Hæstarétti. Það var dæmt ólögmætt að draga vaxtagjöld, sem féllu til vegna láns sem móðurfélag tók til að fjármagna kaup á hlutabréfum í dótturfélagi, frá skattskyldum tekjum dótturfélags.

Í framhaldi höfðaði Toyota mál gegn Deloitte vegna ráðgjafar fyrirtækisins um öfugan samruna. Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður á Málflutningsstofu Reykjavíkur, hefur unnið að þessari lausn í samstarfi við FA. En Páll segir hún komi þó ekki til með að hafa áhrif á þau málaferli sem þegar eru hafin. Hann segir hins vegar að með þessari lausn sé verið að vinda ofan af þessum samrunum og þannig sé settur tappi í gatið.