Áætlanir stjórnenda Icelandair um til að félagið verið arðbært strax á árinu 2022 byggja á því að það takist að koma böndum á heimsfaraldurinn svo flugumferð fari af stað af einhverju ráði á ný á næsta ári og aukist í skrefum fram til ársins 2024 þegar hún komist á svipaðan stað og í fyrra. Þá vonast þeir til að til að markaðsaðstæður verði þeim hagfelldari en síðustu ár.

Í kynningunni segir að félagið sjái vísbendingar um að meðvindur verði með rekstrinum á næstu árum ef það tekst að koma böndum á faraldurinn. „Eftir síðustu áföll, bæði fjármálahrunið 2008 og 11. september 2001, sköpuðust mikil tækifæri fyrir Icelandair, ekki síst á markaðinum á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Miðað við það sem við sjáum í umhverfinu er ekki ólíklegt að það gerist aftur. Við höfum séð félög hverfa af þessum markaði og önnur tilkynna verulegan samdrátt og hætt að fljúga beint á milli áfangastaða í N-Ameríku og Evrópu þar sem við getum komið inn og tengt áfangastaði í gegnum Ísland,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Því til viðbótar muni nýir samningar við flugstéttir, Boeing og kröfuhafa muni lækka rekstrarkostnað félagsins þónokkuð. Þá eigi ríkisábyrgð á lánalínu og hlutafjárútboð skila því að fjárhagsstaða félagsins verði sterk ef útboðið gengur eftir.

Misstu markaðshlutdeild til SAS og Norwegian

Í fjárfestakynningunni sé líklegt að flugleiðir samkeppnisaðila á mörkuðum félagsins sem skili minnstum ábata detti fyrst út. Því ætti fleiri en áður að þurfa að millilenda til að komast á áfangastað, sér í lagi til og frá minni markaðssvæðum. Þetta styrki tengiflugvelli (e. hub) eins og Keflavíkurflugvöll sem Icelandair byggir sitt leiðakerfi upp í kringum. Þá vinni lágt gengi krónunnar með Icelandair samanborið við erlenda samkeppnisaðila, eins og raunin hafi verið í uppsveiflum síðustu ára.

Taprekstur árið 2018 hafi að nokkur leyti stafað af offramboði og verðstríði á flugi yfir Atlantshafið. Erfiðar markaðsaðstæður áttu til að mynda nokkurn þátt í falli Wow air. Flugleiðin á milli Kaupmannahöfn og Boston er nefnd sem dæmi. Árið 2016 hófu SAS og Norwegian að fljúga beint á milli borganna sem hafði í för með sér að samkeppnisstaða Icelandair versnaði. Markaðshlutdeild Icelandair á flugleiðinni lækkaði úr um 40% í um 14-15% og tekjur að sama skapi. Minni eftirspurn á flugmörkuðum kunni að leiða af sér að Icelandair komist aftur í sömu stöðu og fyrir árið 2016.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .