*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Fólk 19. janúar 2020 19:01

Vindhögg í fellibyl

Jóhannes Helgi Guðjónsson, nýr forstjóri Wise lausna, nýtur sín í golfferðum en hefur verið óheppinn með veður.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr forstjóri sameinaðs tölvufyrirtækis undir merkjum Wise lausna, Jóhannes Helgi Guðjónsson, fer reglulega í golfferðir með klúbbnum Vindhöggi, sem hefur tekist að fljúga ítrekað beint inn í fellibylji.
Gígja Einars

„Þetta verður töluverð breyting frá því sem ég hef verið að gera hjá Össuri síðustu fimm árin, en það voru svo sem einnig viðbrigði þegar ég fór þangað á sínum tíma eftir að hafa verið í fjármálatengdri upplýsingatækni í tuttugu ár. Maður bætir alltaf einhverri reynslu við sig og tekur með sér þegar farið er á nýjan vettvang, og það er alltaf skemmtilegt að takast á við nýja áskoranir,“ segir Jóhannes Helgi Guðjónsson, nýr forstjóri Wise lausna.

Félagið var nýlega keypt af nýjum eigendum og er stefnt að sameiningu undir merki þess við félögin Hugbúnaður hf. og Centara ehf.

„Þannig erum við að bæta við okkur verslunarlausnum sem passa vel fyrir viðskiptamannahóp Wise lausna. Wise hefur náð góðum árangri með því að einblína á viðskipta- og bókhaldskerfi fyrir íslenskan markað, sem og sérkerfi eins og sveitarfélaga- og sjávarútvegslausnir. Þannig getum við breikkað framboðið til viðskiptavina okkar, en svo sjáum við einnig mikil tækifæri í að bjóða erlendis þær sterku lausnir sem hafa komið af góðu samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.“

Jóhannes er með menntun í bæði viðskiptafræðum og tölvunarfræðum. „Ég byrjaði starfsferilinn í upplýsingatæknideild Landsbréfa árið 1994, og svo var ég með í að stofna fyrirtækið Mentis, en það einblíndi á hugbúnaðargerð fyrir fjármálamarkaðinn,“ segir Jóhannes Helgi.

„Ég er giftur Örnu Ómarsdóttur, öryggis- og gæðastjóra hjá Air Iceland Connect, gamla Flugfélagi Íslands, og eigum við í sameinaðri fjölskyldu þrjá stráka og eina stelpu á aldrinum 10 til 24 ára.“

Jóhannes segir helstu áhugamálin vera golf, skíði og veiðar, en minna hafi orðið úr ástundun sérstaklega veiðanna vegna vinnu síðustu ár. „Það útheimti töluvert af ferðalögum að vinna fyrir Össur, en í veiðunum eru þetta aðallega laxveiði á sumrin og skotveiði á veturna, þá aðallega rjúpur og svo gæsir þegar ég hef komist í það,“ segir Jóhannes Helgi sem stundar skíðin að mestu með fjölskyldunni.

„Síðan er ég í litlum hóp sem spilar golf vikulega og heldur sín eigin mót og fer í ferðir. Við höfum verið með árlega ferð til Bandaríkjanna á hverju hausti. Þar spilum við eftir Ryder liðafyrirkomulagi, hálfur klúbburinn á móti hinum helmingnum og er það oft mikil spenna í þeirri keppni. Klúbbnum, sem kallar sig Vindhögg, hefur svo tekist í þrjú ár í röð að fljúga inn í fellibyl í golfferðunum okkar. Fyrir tveimur árum enduðum við á að þurfa að fljúga til Washington og keyra 1.500 km leið niður til Orlando því þangað flaug enginn. Það tók einn og hálfan sólarhring en í góðum félagsskap var það mikið ævintýri. Svo það er orðið algengt að Vindhögg finni sér fellibyl.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.