Landsvirkjun hefur lagt fram drög að tillögu að matsáætlun vegna uppbyggingar allt að 200 MW vindlundar á Þjórsár- og Tungnaársvæði. Svæðið sem um ræðir er um 34 ferkílómetrar að flatarmáli en landið er þjóðlenda í eigu íslenska ríkisins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Landsvirkjun hefur síðustu misseri staðið að verkefni sem felst í að kanna hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku á Íslandi.  Í því skyni voru tvær vindmyllur reistar í rannsóknarskyni ofan við Búrfell  í lok árs 2012. Rekstur rannsóknarvindmyllanna hefur gengið vel og því hefur Landsvirkjun ákveðið að reisa fleiri vindmyllur á svæðinu.

Ekki hefur áður verið skoðað ítarlega að setja upp vindmyllur á Íslandi og meta tækifærin sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Því felst talsverð frumkvöðlavinna í verkefninu, segir í tilkynningunni.