Vindmyllurnar tvær sem Landsvirkjun setti í tilraunaskyni upp á hraunsléttu norðan við Búrfell sem kölluð er Hafið, gætu annað raforkuþörf um 1.200 íslenskra heimila. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Úlfari Linnet, deildastjóra rannsóknardeildar Landsvirkjunar, að niðurstöður fyrstu mælinga hafi verið vonum framar. Hann telur vindorku til framtíðar geta orðið þriðju stoðina í orkukerfi Landsvirkjunar.

„Fyrstu mælingar sýna að vindmyllurnar á Hafinu hafa það sem af er ári framleitt 2.660 megavattstundir,“ segir Úlfar. „Það er 500 megavattstundum meiri orka en meðalvindmylla í heiminum hefði náð að vinna, en munurinn svarar til allrar raforkunotkunar 111 heimila.“