Félaginu Vindorku ehf. sem stofnað var árið 1994 hefur verið slitið. Félagið var stofnað með það að markmiði að þróa hugmyndir um nýja tækni í virkjun vindafls. Tækni þessi byggir á uppfinningu Nils Gíslasonar, hugvitsmanns, sem er m.a. þekktur fyrir að hafa fundið upp tölvustýrðar handfærarúllur. Talið var að nýja uppfinningin myndi bylta vindaflstöðvamarkaðnum innan fárra ára. Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.

Hluthafar í Vindorku voru 350, þeir stærstu voru Landsvirkjun og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins, Hitaveita Suðurnesja, Ljósavík ehf. og Nils Gíslason. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Magnús Kristbergsson.

Þrátt fyrir háleit markmið gengu áformin ekki eftir og á aðalfundi Vindorku hf. þriðjudaginn 15. júní s.l. var samþykkt að slíta félaginu þar sem ekki hafi tekist að fá nýja fjárfesta að því. Einn liður í þessu slitaferli var reyna að selja eigur félagsins sem fólust m.a. í einkaleyfi sem er í gildi í Bandaríkjunum, Kanada, Kína og Ástralíu. Auk hönnunargagna frá Garrad & Hassan í Skotlandi á tilraunavindrafstöðinni VN50.

- Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.