*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 3. júlí 2021 19:01

Vindur í segl vindorkuframleiðslu

Nýsköpunarfyrirtækið IceWind hannar og smíðar litlar lóðréttsás vindtúrbínur sérsniðnar að öfgafullu veðurfari á norðurslóðum.

Sveinn Ólafur Melsted
Sæþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri IceWind, stillir sér upp við hlið einnar af vindtúrbínum fyrirtækisins.
Aðsend mynd

IceWind er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hannar og smíðar litlar lóðréttsás vindtúrbínur sérsniðnar að öfgafullu veðurfari á norðurslóðum. Sæþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins, bendir á að rekstraraðilar lítilla orkukerfa úr alfaraleið hafi oftar en ekki engan aðgang að rafmagni og þurfi því að framleiða sína eigin orku. Sólarorka sé mjög takmörkuð á norðurslóðum og því þurfi að notast við aðrar aðferðir við orkuöflun, svo sem vindorku.

„Félagið var stofnað árið 2012 og um tveimur árum síðar fengum við fyrsta styrkinn okkar, frá Tækniþróunarsjóði. Sá styrkur var til tveggja ára og gerði okkur kleift að fara á fullt í að byggja upp fyrirtækið og þróa hugmyndina." Hugmyndin á bak við IceWind fæddist innan veggja verkfræðideildar Háskóla Íslands og var fljót að vinda upp á sig. „Ég byrjaði að prófa mig áfram með að búa til vindtúrbínur, svipaðar þeim sem við framleiðum í dag, til að setja upp í Húsafelli við sumarbústað foreldra mína. Í upphafi einblíndum við því á sumarbústaðarlausnir þar sem þurfti harðgerðar túrbínur til að þola íslenska veðráttu. Á þessum tíma voru engar slíkar túrbínur í boði og þær fáu slíku lausnir sem voru á markaðnum voru rándýrar."

Ferðamaður gerðist fjárfestir

Árið 2015 bættist svo bandarískur fjárfestir við hlutahafahóp IceWind. „Hann kynntist lausn okkar þegar hann var staddur hér á landi sem ferðamaður og sá eina af tilraunatúrbínunum okkar sem staðsett er ofan á Tækniskólanum. Hann heillaðist af þessu verkefni og fjárfesti í því." Sæþór segir að fjármagnið frá honum hafi dugað til að fjármagna fyrirtækið út árið 2016 og hluta af árinu 2017. Þá kom til skjalanna styrkur númer tvö frá Tækniþróunarsjóði. „Við lifðum á honum í u.þ.b. tvö ár. Við sóttum einnig um styrk úr sjóði á vegum Evrópusambandsins (ESB) og fengum hann í árslok 2017 og byrjuðum að keyra á honum í apríl 2018."

Um var að ræða styrk til tveggja ára upp á 1,7 milljónir evra. Sæþór segir að ESB-styrkurinn hafi gert fyrirtækinu kleift að gefa í og ráða inn fleira starfsfólk, til að flýta vexti félagsins.

Þegar þarna var komið við sögu þróuðust hlutirnir á þann veg að áherslur IceWind breyttust. „Við höfum í nokkur ár verið að vinna með fjarskiptafélögum og höfðum því smátt og smátt verið að koma okkur inn í fjarskiptageirann. Það kom fljótlega í ljós að það er mikil vöntun á endurnýjanlegum orkugjöfum í fjarskiptakerfum. 20% af öllum fjarskiptakerfum í heiminum eru keyrð áfram á dísilolíu allan sólarhringinn. Við ákváðum því að venda kvæði okkar í kross og fara í það að þróa lausnir sem eru eingöngu ætlaðar fjarskiptamarkaði," segir Sæþór og bætir við: „Við bjóðum enn upp á „sumarbústaðatúrbínuna" en leggjum mesta áherslu á fjarskiptalausnirnar. Við erum að búa til heildstæðan lausnapakka fyrir fjarskiptafélög þar sem þau geta fengið hjá okkur vindtúrbínur, sólarsellupakka og allt annað sem þarf til að fjarskiptaturninn sé sjálfbær og keyrður áfram á vistvænni orku."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: IceWind