Nýtt fyrirtæki, Vínkaup ehf., hefur keypt víndeild Austurbakka af félaginu en hún hefur verið til sölu um skeið. Eigendur Vínkaupa eru Magnús Scheving Thorsteinsson og fjölskylda og félögin Garðaskjól ehf. og Arev ehf. Að sögn Magnúsar eru ekki á döfinni neinar róttækar breytingar á rekstrinum enda félagið vel rekið í dag.

Arev er félag í eigu Jóns Scheving Thorsteinssonar, sem nýlega eignaðist 30% hlut í breska tískuvörufyrirtækinu Ghost.

"Við vonumst auðvitað til þess að félagið vaxi og dafni," sagði Magnús þegar hann var spurður um áform hans með rekstrinum.

Guðrún Geirsdóttir, deildarstjóri hjá Austurbakka, mun reka félagið og sagði Magnús að engar breytingar á stjórnendahópi félagsins væru á döfinni. Meðal umboða félagsins eru Fonseca púrtvín, Frank Millet og Canepa.

Austurbakki var afskráður úr Kauphöllinni á miðju ári eftir yfirtöku Atorku Group. Í ársbyrjun 2004 voru birgjar víndeildar Asturbakka 45 en tekin hafði verið ákvörðun um að fækka þeim niður í 26 fyrir árslok 2005. Það var áður en sú mikla uppstokkun sem orðið hefur á félaginu átti sér stað. Þann 1. janúar n.k. munu fyrirtækin Austurbakki, Icepharma og Ísmed, sem öll starfa á sviði heilbrigðismála, sameinast undir nafni Icepharma hf. Velta nýja félagsins er áætluð um fjórir milljarðar króna.