Vegna fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði mun hafnasjóður Fjarðabyggðar vinna á næstu 2 árum við byggingu Álvershafnar. Bryggjan verður 380 metra löng með -14,3m dýpi, en það er mesta dýpi sem þekkist við bryggju hér á landi. Allt að 100.000 tonna skip geta lagst að bryggjunni. Inn- og útflutningur um höfnina er áætlað að verði um 1.200.000 tonn á ári.

Í sumar hóf Arnarfell byggingu þessarar bryggju. Verkið felst í að sprengja 40 þúsund rúmmetra af klöpp, dýpka og fylla um 260 þúsund rúmmetra og reka niður 450 metra langt stálþil. Tilboð verktaka í verkið hljóðaði upp á 261 m. kr.

Verkið hefur gengið vel ef frá er skilinn rekstur stálþils sem hófst ekki fyrr en í október en Arnarfell hefur nú lokið um fimmtung verksins. Stefnt er að því að verki ljúki í lok júní á næsta ári.

Erfiðlega hefur gengið að fylla fyrir framan væntanlega bryggju. Ástæðan er að fyllingin sem kemur fyrir framan bryggjuna og sjávarbotninn undir henni vill skríða fram meðal annars vegna þess að aðdýpi er mikið og botninn brattur. Nú um helgina fór svo að fyllingin gaf sig en verið er að gera ráðstafanir vegna þessa. Á meðan er unnið við uppfyllingar og að setja niður þil á öðrum hluta bryggjunnar. Vonast er til að vinnu við verkið ljúki um mitt næsta ár.