Í samtali við Sigurjón Árnason, bankastjóra Landsbankans, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að hann telur bankann mjög vel fjármagnaðan um þessar mundir og segist hann þakka það að þeir, "lentu í því láni í fyrra að lenda í óláni." Því hafi bankinn náð að undirbúa sig vel og er CAD-hlutfall bankans nú 12,5% og því er fjárhagslegur styrkur bankans mikill að sögn Sigurjóns.


Að sögn Sigurjóns standa innlán bankans nú undir um það bil 80% af fjármögnun bankans en þetta hlutfalla var 76% þegar sex mánaða uppgjörið var kynnt. Sigurjón benti á að margar stoðir eru undir þessu þó Icesave innlánaformið hafi orðið þekktast, en þar eru nú 105 þúsund viðskiptavinir. Bankinn hafi hins vegar innlánafjármögnun á Íslandi, Lúxemborg, Hollandi og Ermasundseyjunum. Sömuleiðis sé bankinn með fleiri innlánaform í London og sagðist Sigurjón telja að undir innlánum bankans væru sjö til átta stoðir.


Landsbankinn er með í undirbúningi að hefja sambærilega starfsemi og Icesave í fleiri löndum á meginlandi Evrópu. Sigurjón sagðist ekki geta sagt til um hvaða lönd það væru, en undirbúningur gengi vel. Stefnt væri að því að hefja þessa útrás með Icesave innan árs, en nú er ár síðan bankinn opnaði fyrstu reikningana. "Það er gert til að fá fleiri stoðir undir kerfið þannig að við séum ekki að horfa bara á einn markað og um leið mun það tryggja okkur fjármögnun í evrum."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.