Markmið Hydro með því að setja á laggirnar skrifstofu á Íslandi er að vinna að þeim möguleikum sem er að finna á Íslandi og á Norður-Atlantshafssvæðinu hvað varðar þróun á orkulindum, segir í tilkynningu. Einkum er horft til álframleiðslu en einnig verður sérstök áhersla lögð á nýjar orkulindir sem stuðlað geta að sjálfbærri samfélagsþróun.

Hydro hefur að sinni engin fastmótuð áform um álvinnslu á Íslandi og hjá fyrirtækinu eru heldur ekki fyrir hendi neinar ákveðnar hugmyndir um stærð þess álvers sem ef til vill gæti komið til mála að reisa síðar meir.

Í tilkynningunni segir að í fjölmiðlum er því haldið fram að Hydro stefni að því að reisa álverksmiðju með 600.000 tonna ársframleiðslu á Íslandi. Þennan misskilning má líklega rekja til þeirrar staðreyndar að nú er unnið að byggingu verksmiðju í þeirri stærð í Katar.

Hydro er sammála þeirri skoðun íslenska iðnaðarráðherrans að óraunhæft sé að reisa svo stórt álver á Íslandi. Ástæðurnar eru ekki síst staða orkumála og þau áhrif sem verkefni af þeirri stærðargráðu gæti haft á íslenskt efnahagslíf á byggingartímanum.