Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra í lok októbermánaðar um rafræn skattkort. Spurði hann þá meðal annars að því hvort unnið væri að því í fjármálaráðuneytinu að taka upp rafræn skattkort.

Fjármála- og efnahagsráðherra svaraði fyrirspurninni skriflega í dag þar sem fram kemur að embætti ríkisskattstjóra hafi nú um nokkurt skeið unnið að tillögugerð varðandi notkun skattkorta til framtíðar. Ráðuneytið muni taka þær tillögur til gaumgæfilegrar athugunar þegar þær berist með það að leiðarljósi að einfalda notkun þeirra sem kostur sé með tilliti til rafrænnar stjórnsýslu.

Með svari ráðherrans fylgir umsögn ríkisskattstjóra um málið þar sem fram kemur að tillögurnar muni liggja fyrir í lok þessa árs og verði sendar ráðuneytinu til athugunar. Segir einnig að ef tillögurnar verði í samræmi við frumhugmyndir og fái jákvæðar undirtekir ráðuneytisins megi vænta þess að þær kalli á nokkrar lagabreytingar til að laga núverandi kerfi að þeirri rafrænu stjórnsýslu sem nú sé orðin alls ráðandi hér á landi.

Ríkisskattstjóri segir jafnframt að ætla megi að hið nýja fyrirkomulag muni létta ýmsum launagreiðendum og launamönnum, sem séu í óreglulegum störfum eða fái tilfallandi staðgreiðsluskyldar tekjur, umsýslu með persónuafslátt, hvort sem hann verði byggður á einhverju formi skattkorta eða annarri rafrænni lausn.

Svar ráðherra og umsögn ríkisskattstjóra má finna hér .