Formenn stjórnarflokkanna vinna að því að leggja fram kvótafrumvarp á Alþingi í dag. Frumvarpið var kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna fyrir viku og kom þá fram óánægja með það í þingflokki Samfylkingarinnar. Breytingar voru þá gerðar á frumvarpinu og það kynnt á ný í gærkvöldi.

Fram kom í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að efnislega sé frumvarpið í flestum atriðum líkt því sem lagt var fram í vor. Óánægjan snýst annars vegar um það að fyrning aflaheimilda er nánast horfin úr frumvarpinu. Hins vegar snýr hún að ósátt þingmanna við ýmis útfærsluatriði, s.s. því hve litlu er varið í leigupotta og byggðapotta. Ofan á það er óánægja með að útgerðum er ekki skylt að landa afla á innlenda markað.

Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði jafnframt að þau frumvörp sem eiga að koma til afgreiðslu Alþingis fyrir jól verði að gera það í síðasta lagi í dag.