Google hefur beðið starfsmenn sína að vinna í fjarvinnu úr heimahúsi þar til í september á næsta ári. Þar með hefur fyrirtækið seinkað endurkomu starfsmanna á skrifstofur fyrirtækisins um nokkra mánuði. Reuters greinir frá.

Þá hyggst Google prófa að taka upp „sveigjanlega vinnuviku“ þegar loks verður öruggt fyrir starfsmenn að snúa aftur til starfa á skrifstofur fyrirtækisins. Sundar Pichai, forstjóri Google greindi frá þessu í tölvupósti til starfsmanna.

Mun sveigjanlega vinnuvikan felast í því að starfsmenn þyrftu að mæta a.m.k. þrisvar sinnum í viku á skrifstofuna en aðra daga hefðu þeir kost á að vinna heima.

Google var eitt af fyrstu stórfyrirtækjum á heimsvísu sem fór fram á það að starfsmenn þess myndu vinna að heiman vegna kórónuveirufaraldursins. Google hafði þau áform að starfsmenn myndu snúa aftur á skrifstofurnar í næsta mánuði en síðan var áformunum frestað þar til í júlí á næsta ári en nú hefur, líkt og fyrr segir, endurkomunni verið frestað á ný þar til í september 2021.