Breska fyrirtækið Framestore er meðal stærstu fyrirtækja á sviði eftirvinnslu og vinnslu á tölvugrafík fyrir kvikmyndir í heiminum. Fyrirtækið er með skrifstofur í þremur borgum, London, New York og Reykjavík og hefur Reykjavíkurskrifstofan komið að vinnu við nokkrar af stærstu Hollywood-kvikmyndum síðustu ára.

Daði Einarsson er framkvæmdastjóri Framestore á Íslandi og hefur hann ásamt samstarfsfólki sínu m.a. unnið að kvikmyndum eins og síðustu Harry Potter myndinni, Tinker Tailor Soldier Spy og Contraband. Fjöldi starfsfólks ræðst af verkefnastöðu en hefur verið á bilinu 12 til 25.

Daði Einarsson, Framestore Reykjavik.
Daði Einarsson, Framestore Reykjavik.

Betri nettenging er hagsmunamál

Daði segir að það hái fyrirtækinu mjög lítið að vera hér á Íslandi, þótt viðskiptavinir séu flestir í útlöndum. „Kvikmyndir eru teknar upp víðs vegar um heiminn og það sama á við um eftirvinnslu og tölvugrafíkvinnslu. Stúdíóin setja eftirvinnsluna þangað sem er best og hagkvæmast að vinna hana. Ef við erum samkeppnishæf skiptir ekki öllu máli hvar við erum í heiminum.“ Hann segir þó að nettengingin við útlönd sé flöskuháls. „Við sendum gríðarlega stórar skrár á milli landa og miklu máli skiptir að nettengingin sé hröð og örugg. Það er því mikið hagsmunamál fyrir okkur að fá betri tengingu við útlönd og ég er viss um að þegar hún er komin munu fleiri fyrirtæki eins og Framestore spretta upp.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.