© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Athafna- og veitingamaðurinn Ásgeir Þór Davíðsson, betur þekktur sem Geiri á Goldfinger, vinnur nú ásamt öðrum að opnun spilavítis á höfuðborgarsvæðinu. Ásgeir staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið en segist að öðru leyti ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu. Málið sé á viðkvæmu stigi og verið sé að skoða fasteign undir reksturinn.

Fasteign í Kópavogi

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Ásgeir ásamt fleirum litið til byggingar í Hvarfahverfi í Kópavogi sem álitlegan kost undir reksturinn. Þó er ekkert frágengið í þeim efnum. Þá herma heimildir blaðsins að meðal þeirra sem hafa sýnt áhuga á að koma að rekstri spilavítisins séu fjárfestar frá Austur- Evrópu. Ef verður af opnun spilavítis yrði um að ræða einkaklúbb. Aðspurður segir Ásgeir að löglegt sé að reka spilavíti hér á landi svo lengi sem það sé einkaklúbbur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.