Nauðsynlegt er að koma á fót virku markaðstorgi fyrir orku hér á landi. Að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, framkvæmdastjóra Landsnets, hefur verið unnið að undirbúningi slíks markaðar um nokkurt skeið.

Síðasta haust var samþykkt orkustefna sem gildir fyrir Ísland til ársins 2050. Meðal markmiða hennar er að orkukerfið verði fjölbreyttara, að auka orkunýtni og draga úr sóun í kerfinu, gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti bæði á landi og legi og að endingu að orkumarkaðurinn sé virkur og samkeppnishæfur. Að mati Landsnets er orkumarkaður, kauphöll fyrir rafmagn, ein skilvirkasta leiðin til að uppfylla stóran hluta þeirra markmiða sem stefnan setur og sú leið sem flestar þjóðir hafa farið.

„Virkur orkumarkaður er í raun og veru stórt tæki sem nágrannaþjóðir okkar nota til að uppfylla sína orkustefnu og ná markmiðum í loftslagsaðgerðum. Ef við berum okkur saman við Evrópu þá erum við talsvert eftir á og líklegt að við þurfum að herða okkur nokkuð,“ segir Guðmundur Ingi.

Samkvæmt raforkulögum er gert ráð fyrir frjálsum viðskiptum með raforku. Undanfarið hefur orðið talsvert mikil þróun á framboðshliðinni með auknum fjölda smærri virkjana sem hafa ekki leiðir til að selja framleiðslu sína beint á markað.

Myndi auka gagnsæi

„Það sem við sjáum fyrir okkur er kauphöll fyrir raforku þar sem sjá má stöðuna á kaup- og söluverði á hverjum tíma fyrir sig,“ segir Guðmundur Ingi. Lengi hafi verið unnið að undirbúningi verkefnisins og á næstu misserum verður það mikið áherslumál fyrir félagið, hvort sem það mun reka markaðinn á endanum eða annar aðili.

„Allstaðar í heiminum er megintilgangur kauphalla með raforku að tryggja hagkvæmasta verð til notenda hverju sinni auk þess að tryggja jafnan aðgang að markaðinum.  Þetta mun skipta miklu máli fyrir nýja orkukosti eins og smávirkjanir, vindorkuver og rafhlöður,“ segir Guðmundur Ingi.

Ímyndum okkur til að mynda eiganda rafmagnsbíls sem á orku eftir á geyminum og sér ekki fyrir sér að þurfa að hreyfa hann á næstunni. Hann gæti séð sér hag í því að tengja bílinn inn á kerfið þegar verð er í hæstu hæðum og selja þá orku inn á kerfið. Þegar álagspunktar eru minni og verðið því lægra myndi hann hlaða bílinn að nýju.

„Það er ekki það eina heldur er slíkur markaður mjög mikilvægur upp á orkuöryggi að gera. Orkan fær skýrt verðmerki og þá sést hvenær er ofgnótt og hvenær skortur. Út frá því er auðveldara að meta fjárfestingaþörfina í framleiðslu. Að auki eykur það gagnsæi markaðarins og þá sést svart á hvítu hvort verðin eru samkeppnishæf í stað þess að greina þurfi það sérstaklega hverju sinni,“ segir Guðmundur Ingi.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .