*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 10. janúar 2019 17:12

Vinna að úrbótum vegna braggamálsins

Fyrsta greining á skýrslu IE felur í sér að gildandi lögum, reglum og samningum var ekki fylgt með fullnægjandi hætti.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Skýrsla Innri endurskoðunar vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100 var kynnt í borgarráði 20. desember sl. Úttektin tók á öllum þáttum verkefnisins, bæði aðdraganda framkvæmdanna, hvernig að þeim var staðið og þeim frávikum sem urðu.

Þá var borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa falið að hafa forystu um að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum í skýrslu IE og gera tillögur um að breyta og formfesta skipulag, verkferla og vinnubrögð til að draga úr líkum á að frávik sem þessi endurtaki sig.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag sagði Hildur sig frá starfi hópsins þar sem borgarstjóri neitaði að víkja sæti, enda snúa tillögurnar um skoðun á embættisfærslum hans. Í féttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir hins vegar að strax í kjölfar fundar borgarráðs hafi farið af stað vinna við að draga fram ábendingar og niðurstöður skýrslunnar og að sú vinna hafi staðið yfir undanfarnar vikur.

Yfirlitið geymir þær ábendingar, athugasemdir og önnur atriði úr skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100, sem með einum eða öðrum hætti kalla á viðbrögð borgarráðs og stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Eins og rakið er í bréfi innri endurskoðanda til borgarráðs með skýrslunni telur IE að í skýrslunni séu nægar upplýsingar til að stjórnendur geti gert viðeigandi úrbætur á verklagi, eftirlitsaðgerðum og eftir atvikum breytingum á stjórnkerfi til þess að tryggja að markmið borgarstjórnar nái fram að ganga.

Eins og yfirlitið ber með sér felur fyrsta greining á skýrslu IE í sér að gildandi lögum, reglum og samningum var ekki fylgt með fullnægjandi hætti í tengslum við framkvæmdir við Nauthólsveg 100. Þetta á við um marga þætti málsins, gerð áætlana, eftirlit, skjölun og fleira. Í öðru lagi var eftirliti og upplýsingagjöf ekki sinnt með fullnægjandi hætti af þeim aðilum sem höfðu þau verkefni með höndum. Bregðast þarf við þessum atriðum, og öðrum eftir því sem við á, með þeim hætti sem dregið er fram í skýrslu og bréfi innri endurskoðanda, þ.e. með viðeigandi úrbótum á verklagi, eftirlitsaðgerðum og eftir atvikum með breytingum á stjórnkerfi.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að yfirlitið yfir ábendingar og niðurstöður sem var lagt fram á fundinum sé afar mikilvægt. „Þarna höfum við dregið fram kjarnann í skýrslu Innri endurskoðunar og munum vinna með þetta jafnt og þétt áfram í samvinnu við borgarráð. Eins og fram hefur komið þá er þessi framúrkeyrsla - frávik í framkvæmdum á vegum borgarinnar. Nú hefur skýrsla IE verið lögð fram og í dag er búið að draga fram aðalatriðin í skýrslunni. Næsta skref í málinu er að vinna að nauðsynlegum úrbótum til að tryggja að svona frávik endurtaki sig ekki. Sú vinna hófst reyndar þegar í október í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar,"  segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Stikkorð: Reykjavík braggamálið
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is