Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki hafið vinnu við frumvarp sem takmarkað gæti vaxtamunarviðskipti. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Við kynningu vaxtaákvörðunar síðasta miðvikudag sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að bráðlega yrðu kynntar aðgerðir til að takmarka vaxtamunarviðskipti, annað hvort með skatti eða bindisskyldu.

„Ráðuneytið væntir þess að nú þegar hilla fer undir losun fjármagnshafta muni það eiga samráð við Seðlabankann um þessi atriði,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Ráðuneytið kveðst hafa horft til þess hvort og hvernig megi móta lagareglur sem gætu takmarkað fjármagnsinnflæði innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Þar hafi verið höfð til hliðsjónar skýrsla Seðlabankans um varúðarreglur eftir fjármagnshöft.